Copy
Fréttir og upplýsingar frá Álftanesskóla.
23. árgangur 8. tbl - nóvember 2016

Kæru foreldrar

Ágætu foreldrar/forráðamenn nemenda í Álftanesskóla.


Haustið hefur verið okkur öllum afar hlýtt og farsælt og hér í skólanum hefur skólastarfið gengið sinn vanagang. Í garð er genginn sá tími sem mikilvægt er að öll börn og fullorðnir nýti endurskinsmerki í skammdeginu og tryggi þannig sem best öryggi sitt í umferðinni.

Í október var forvarnarvika í Garðabæ og þar var fjallað um tölvur og snjalltæki og áhrif notkun þeirra á líðan barna og unglinga. Við viljum benda foreldrum á heimasíðu Heimils og skóla og SAFT (Samfélag, fjölskylda og tækni) en þar er að finna fræðsluefni um örugga tækninotkun barna og unglinga.

Að gefnu tilefni viljum við einnig minna á að snjalltæki sem nemandi er með má ekki hafa truflandi áhrif með neinum hætti á nám, kennslu, félagsstarf og frítíma nemenda á skólatíma og á vegum skólans. Nemandi þarf að hafa leyfi kennara til að nota tækið í kennslustund. Jafnframt skal tekið fram að allar myndatökur og hjóðupptökur eru bannaðar í húsnæði Álftanesskóla og starfsstöðva hans, nema með sérstöku leyfi.

 

Skipulagsdagar 17. og 18. nóvember

 
Dagana 17. og 18. nóvember eru skipulagsdagar hér í skólanum en Skólanefnd Garðabæjar samþykkti fyrir upphaf skólaársins breytingu á skóladagatalinu 2016 - 2017. Lagt var til að færa skipulagsdagana 16. september og 30. nóvember til og skapa þar með svigrúm til náms- og fræðsluferðar starfsmanna skólans til Brighton á Englandi. Beiðni Álftanesskóla var samþykkt enda tryggir skólinn möguleika á gjaldfrjálsri vistun í tómstundaheimilinu Frístund fyrir þá sem þess óska á hefðbundnum skólatíma. Opið er frá  kl. 8:00 til 17:00 báða dagana og er öll starfsemi Frístundar í Vallarhúsinu.

Athugið að það þarf að skrá börnin sérstaklega þessa tvo skipulagsdaga og er síðasti skráningardagur  mánudaginn 14. nóvember kl. 12:00.
 
Til þess að tryggja það að allar upplýsingar séu rétt skráðar þessa daga er nauðsynlegt að í skráningunni sé skráður tíminn sem barnið kemur að morgni og hvenær það fer heim í lok dags. Hvort það eigi að ganga heim eða verði sótt og hvort það séu einhverjar tómstundir sem barnið á að fara í þessa daga. Mikilvægt er að þessi skráningartími sé virtur, þar sem mikil skipulagning fer fram við undirbúning þessara daga.

 

Lesið í Nesið

Hinir árlegu uppbrotsdagar „Lesið í Nesið“ voru dagana 13. og 14. október síðastliðinn en þema þeirra var „Snjallir dagar koma og fara“. Nemendur unnu fjölbreytt verkefni tengd þessu þema, til að mynda vann yngsta stig með gildin í bekkjarsáttmálanum á fjölbreyttan hátt. Hver árgangur fyrir sig horfði jafnframt á fræðslumynd um flogaveiki og einnig var rætt um netnotkun og reglur á netinu og notað til þess fræðsluefni frá SAFT. 

Nemendur á elsta stigi unnu könnun um tækja- og netnotkun, tækjaeign, svefnvenjur, reglur og annað tengt tækjum og internetinu. Andri Bjarnason sálfræðingur kom einnig og talaði við nemendur 8. - 10. bekkja um snjalltækjanotkun og hugsanleg áhrif hennar á líðan, hegðun og svefnvenjur. Andri kom inn á mikilvægi þess að skjánotkun væri innan skynsamlegra marka og hve mikilvægt væri að setja reglur um hana. Nemendur voru til fyrirmyndar og virtust ánægðir með skilaboðin.


Fjöruferð í 2. bekk

 
Nemendur í  2. bekk fóru í fjöruferð í tengslum við þemadagana „Lesið í Nesið“. Börnin fengu það verkefni að finna alls kyns lífverur sem var safnað saman í bakka og rannsakaðar og skoðaðar. Veðrið var frábært og nutu börnin sín vel.


Forvarnardagurinn 2016

Forvarnardagurinn var haldinn 12. október síðastliðinn. Dagurinn var helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu.
Dagskrá dagsins var ætluð nemendum 9. bekkjar um land allt. Nemendur horfðu á kynningarmyndband, en þátttaka þeirra fólst síðan í því að ræða í hópum um þrjá þætti: samveru með fjölskyldu og vinum, skipulagt íþrótta- og tómstundastarf og frestun þess að hefja áfengisneyslu, sem hafa samkvæmt rannsóknum skilað mestum árangri þegar kemur til forvarna á þessu sviði. Með slíkri vinnu átta ungmenni sig oft á mikilvægi þessara þátta og verða meðvitaðir um hve félagsleg tengsl skipta miklu máli.


Bangsadagur á bókasafninu

Nemendum úr 1. bekk var boðið í heimsókn á skólasafnið í tilefni bangsadagsins. Allir bangsar safnsins voru settir fram. Fyrst fengu þau smá fræðslu um sögu bangsadagsins. Síðan hlustuðu þau af athygli á söguna „Bangsímon og hunangstréð“ með bangsa í fanginu. Og að lokum fengu þau bangsabókamerki.

 


EU Code Week í Álftanesskóla

Vikuna 14. - 22. október tóku 2. og 3. bekkur í Álftanesskóla þátt í forritunarvikunni EU Code Week.

Hver bekkur tók þátt í eina klukkustund, sem byrjaði á því að rætt var um forritun, hvað er að forrita, hvaða tæki í kringum okkur væru forrituð og hvernig maður forritar. Síðan unnu tveir og tveir nemendur saman í leiknum Run Marco. En það er leikur sem kennir grunnatriði forritunar.

Mikil gleði var hjá nemendum og þau unnu einbeitt saman að því að leysa verkefnin.

Lesa má nánar um EU Code Week á vefsíðunni codeweek.eu


Myndmennt

Nemendur hafa verið að vinna fjölbreytt og skemmtileg verkefni í myndmennt undanfarið. Til dæmis teiknuðu krakkarnir litríkar og fallegar myndir af norðurljósunum og í tilefni af hrekkjavökunni unnu þau skemmtilegar klippimyndir.

Í myndasafninu á heimasíðu skólans má finna fleiri myndir af verkefnum nemenda.


Skólanefnd og fulltrúar nemenda

 
Skólanefnd Garðabæjar hitti á dögunum fulltrúa nemenda skólans þær Heklu og Helgu Rún í 10. bekk og þá Benedikt, Svein og Val í 6. bekk. Á fundinum var rætt um hvað væri gott í Álftanesskóla og hvað mætti betur fara. Fundurinn var bæði fróðlegur og skemmtilegur og stóðu fulltrúar nemenda sig með mikilli prýði.


Kynfræðsluerindi með Siggu Dögg

Félagsmiðstöðin Elítan og Foreldrafélag Álftanesskóla býður
nemendum í 8. - 10. bekk og foreldrum/forráðamönnum upp á kynfræðsluerindi mánudaginn 14. nóvember. Fyrirlesari verður
Sigríður Dögg Arnardóttir (Sigga Dögg). Á fyrirlestri foreldra verður
lögð áhersla á upplýsingagjöf auk þess sem leitast verður við að svara spurningum foreldra um hvernig megi nálgast börnin sem "mögulega" vilja hvorki ræða málin né hlusta. Samkvæmt rannsóknum er
kynfræðsla fyrir foreldra talinn mikilvægur liður í að bæta uppeldisfærni þeirra á málefni sem þeir telja sig eiga að vera að sinna og sýna áhuga á en skortir mögulega kunnáttuna til þess.

Fyrirlesturinn fyrir foreldra fer fram í hátíðarsal Álftanesskóla
kl. 20:30 - 21:30. Áður en fyrirlesturinn hefst hvetjum við foreldra til að mæta í Félagsmiðstöðina Elítuna kl. 20:00 og kynna sér starfsemi hennar og þiggja veitingar í boði Foreldrafélagsins.

Fyrirlestrar þetta kvöld verða sem hér segir:
Kl. 18:30 stúlkur 8. - 10. bekk
Kl. 19:30 drengir 8. - 10. bekk
Kl. 20:30 foreldrar í Álftanesskóla


Kærleikarnir 2016

Dagana 24. og 25. nóvember verða hinir árlegu Kærleikar og
er þema þeirra í ár „Tilheyra“. Árgangar og nemendur verða
paraðir saman í vinapör og munu hittast með umsjónakennurum. Þau munu vinna að því að kynnast og útbúa saman hjarta sem er tákn þess að tilheyra, skreyta og skrifa áhrifarík skilaboð á hjörtun til að hengja upp í íþróttamiðstöðinni.
Vinabekkir vinna svo saman eitt stórt hjarta sem fer á stofnanir í kringum skólann.

 

Kærleiksverkefni nemenda Álftanesskóla

 
Nemendur skólans hafa styrkt ýmis málefni síðustu ár í staðinn fyrir að skiptast á jólagjöfum. Stjórn nemendafélagsins ákveður hverju sinni hvert styrkirnir fara og kynnir verkefnið fyrir samnemendum sínum á Kærleikunum. Hver nemendi hefur kost á að taka þátt í Kærleiksverkefninu og ef allir leggja til 300 til 500 kr. þá gæti styrkurinn orðið um 130.000 kr.

Kærleiksverkefnið og framkvæmd þess verður nánar kynnt á Kærleikunum 24. nóvember einnig á heimasíðunni og Facebook síðu skólans.

Jóla- og góðgerðadagurinn 2016

 
Hinn árlegi Jóla- og góðgerðadagur á Álftanesi verður haldinn í áttunda sinn laugardaginn 26. nóvember í íþróttamiðstöðinni á Álftanesi frá kl. 12:00 til 16:00.
 
Nánari dagskrá má finna á heimasíðu skólans þegar nær dregur.


Á döfinni


Miðvikudaginn 16. nóv Dagur íslenskrar tungu
Dagana 17. og 18. nóv Skipulagsdagar (námsferð starfsmanna skólans til Brighton)
Dagana 24. og 25. nóv Kærleikarnir
Föstudaginn 25. nóv Grænfánatískusýningin
Laugardaginn 26. nóv Jóla- og góðgerðardagurinn

Þriðjudaginn 20. des Litlu jólin

 
©2016 Álftanesskóli
Álftanesskóli, v/ Breiðumýri, 225 Garðabær

www.alftanesskoli.is
alftanesskoli@alftanesskoli.is


This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Álftanesskóli · Breiðumýri · Gardabaer 225 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp