Copy
Fréttir og upplýsingar frá Álftanesskóla.
21. árgangur 2. tbl - október 2014

Kæru foreldrar

Ágætu foreldrar/forráðamenn nemenda í Álftanesskóla.

Nú er skólaárið farið vel af stað og haustið gengið í garð. Með kólnandi veðri viljum við minna á mikilvægi þess að huga að réttum klæðnaði og að allir klæði sig eftir veðri.

Við viljum einnig minna á breyttan útivistartíma barna og unglinga sem tók gildi 1. september sl. Á skólatíma 1. september til 1. maí mega börn yngri en 12 ára lengst vera úti til kl. 20 og börn 13 til 16 ára lengst vera úti til kl. 22.

 

Göngum í skólann

Verkefninu Göngum í skólann lauk miðvikudaginn 8. október í blíðskaparveðri. Nemendur höfðu val um að ganga eða hjóla þar sem Álftanesið er kjörið fyrir hvoru tveggja. Skólinn hefur ávallt hvatt bæði nemendur sem og fullorðna til að ganga eða hjóla í skólann en það er hluti af Grænfána- og Sjálfbærniverkefnum skólans sem stuðla að heilbrigði og velferð. 

Markmið verkefnisins er meðal annars að hvetja alla til aukinnar hreyfingar, stuðla að heilbrigðum lífsstíl, draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum, auka samfélagsvitund um hversu gönguvænt umhverfið er og síðast en ekki síst til að kenna reglur um öryggi á göngu og hjóli.

 

Skipulagsdagur 27. október

Samkvæmt skóladagatali er skipulagsdagur í öllum grunnskólum Garðabæjar mánudaginn 27. október og eru nemendur skólans þá í fríi frá skólasókn.

Frístund tómstundaheimili Álftanesskóla er lokað þann dag.

Námsviðtöl og nýtt bókunarform

Þriðjudaginn 28. október verða fyrstu námsviðtöl þessa skólaárs. Ákveðið hefur verið að taka upp nýtt form varðandi bókun námsviðtala. Foreldrar bóka sjálfir tíma í gegnum Mentor og mikilvægt er að þeir sem eiga fleiri en eitt barn í skólanum bóki viðtöl strax til að þeir fái samliggjandi tíma í viðtölin. Mikilvægt er hins vegar að bóka viðtölin ekki of þétt (15 mín á milli) svo tími sé til að fara á milli stofa.

Skráning opnaði þriðjudaginn 14. október og síðasti dagur til að bóka sig í viðtal verður 23. október eftir það mun kerfið loka fyrir bókanir.

Leiðbeiningar og kennslumyndband um skráningu viðtala í Mentor má finna á heimasíðu skólans undir Foreldrar - Námsviðtöl.

Veikindi tilkynnt í gegnum Mentor

Skólinn hefur tekið upp það fyrirkomulag að foreldrar/forráðamenn geta nú tilkynnt veikindi barna sinna í gegnum Mentor. Á heimasíðu skólans undir Foreldrar - Tilkynna veikindi má finna nánari leiðbeiningar.

 

Lesið í Nesið útikennsludagar

Dagana 29. og 30. október verða útikennsludagarnir Lesið í Nesið. Um er að ræða skerta kennsludaga þar sem unnið verður frá kl. 9:00 til hádegis í fjölbreyttum útikennsluverkefnum. Yngsta stig mun fara í fjöruferð þar sem þau meðal annars búa til listaverk úr efnivið úr fjörunni, leysa ýmsar þrautir og fleira skemmtilegt.
Á meðan mun miðstig og elsta stig taka þátt í ýmiss konar stöðvavinnu við skólann og fara í gönguferðir um Nesið.

Mjög mikilvægt er að nemendur klæði sig eftir veðri.

 

 

Framkvæmdir á skólalóð

Framkvæmdir á skólalóð eru nú á lokastigi og unnið er að því að ljúka uppsetningu á nýju leiktækjunum og frágangi í kringum þau. Nemendur í 6. bekk ásamt kennurum sínum og skólastjóra lögðu heldur betur sitt af mörkum við að fegra skólalóðina í byrjun mánaðarins. Með aðstoð garðyrkjudeildar Garðabæjar gróðusettu þau 312 trjáplöntur á lóð skólans í gróðurbeð á þeim hluta lóðarinnar sem hefur verið í vinnslu. Nemendurnir jöfnuðu og sléttuðu beðin eftir gróðursetninguna og dreifðu jafnframt sandi yfir til að minnka líkur á að illgresi vaxi í þeim. Skólalóðin er nú mun hlýlegri og fallegri á að líta eftir gróðursetningu nemendanna sem með þessu framtaki lögðu jafnframt sitt af mörkum í Grænfánaverkefni skólans. 

Á döfinni

Dagana 14. - 23. október Opið fyrir skráningu í námsviðtöl í Mentor.
Mánudaginn 27. október er skipulagsdagur kennara.
Þriðjudaginn 28. október eru námsviðtöl 1. kvartel.
Dagana 29. - 30. október eru útikennsludagarnir Lesið í Nesið.
Dagana 27. - 28. nóvember eru Kærleikar - vináttudagar í Álftanesskóla.
©2014 Álftanesskóli
Álftanesskóli, v/ Breiðumýri, 225 Garðabær

www.alftanesskoli.is
alftanesskoli@alftanesskoli.is