Copy
Fréttir og upplýsingar frá Álftanesskóla.
21. árgangur 1. tbl - ágúst 2014

Kæru foreldrar

Ágætu foreldrar/forráðamenn nemenda í Álftanesskóla.

Nú líður að upphafi nýs skólaárs. Samfellt skólastarf barna- og unglingafræðslu á Álftanesi hefur staðið óslitið frá 1880. Fyrstu 9 árin lánaði Grímur Thomsen stofu á Bessastöðum fyrir skólahaldið. Árið 1889 var byggt skólahús á Bjarnastöðum úr timbri og klætt járni. Það hús var kalt og lak vatni. 1914 er byggt það steinhús sem enn stendur á Bjarnastöðum sem skólahús fyrir barna- og ungmennafræðslu hér á Álftanesi. Húsið teiknaði og hannaði Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins. Þetta skólahús var ekki aðeins skólahús heldur þess tíma menningarhús og menningarmiðstöð sveitarfélagsins. Skólahúsið á 100 ára sögu- og menningarlegt afmæli í ár. Fyrstu árin hófst skólastarfið í byrjun október og skólinn settur fyrsta laugardag í október. Íbúum á Álftanesi fjölgaði jafnt og þétt og þegar skólahúsið var orðið of lítið fyrir skólastarfið var hafist handa við byggingu núverandi húsnæðis skólans og fyrstu þrjár kennslustofurnar og skrifstofuálma tekin í notkun 1978. Síðan þá hefur verið byggt mörgum sinnum við skólahúsið og enn þarf að byggja við þar sem núveranandi skólahús hýsir ekki alla starfsemi skólans. Kennsla fer fram í fjórum kennsluskálum á skólalóð skólans og matsalur skólans er í Hátíðarsal sem er staðsettur í Íþróttamiðstöðinni á Álftanesi einnig er öll skrifstofuaðstaða og sérfræðiaðstaða löngu sprungin utan af skólastarfinu. Árið 2010 héldum við upp á 130 ára samfellda skólasögu og skólastarf á Álftanesi með veglegri hátíð þar sem öllum íbúum Álftaness og góðum gestum var boðið til veislu og skólasýningar daginn eftir. Þetta gerðum við í byrjun október og ákváðum þá að það yrði afmælisdagur skólastarfsins og skólans. Mikið hefur verið rætt um verðandi hlutverk skólahússins á Bjarnastöðum eftir að sveitarfélagið Álftanes og Garðabær sameinuðust í nýtt sveitarfélag Garðabæjar og húsið aflagt sem skrifstofuhúsnæði sveitarfélagsins. Í huga okkar skólafólks er nauðsynlegt að skólastarfi, menningarlegu hlutverki hússins sem og húsinu sjálfu sem hluta af menningu okkar sé sýnd virðing. Jafnframt að húsið verði gert upp en fái að haldi sínu upprunalega útliti bæði að innan og utan sem skólasafn og menningarhús fyrir Garðabæ. Að það hýsi skólasögu okkar allra þar sem skólasaga á Álftanesi og í Garðabæ er einnig skólasaga Íslands.

Til hamingju með 100 ára ártíð skólahússins á Bjarnastöðum.
Sveinbjörn Markús Njálsson, skólastjóri.

 

Skólasetning Álftanesskóla 2014


Skólasetning fer fram í íþróttasal Íþróttamiðstöðvar mánudaginn 25. ágúst 2014. 

Foreldrar eru hvattir til að mæta með börnum sínum á skólasetningu. 

Nemendur skólans mæta til skólasetningar eftir árgöngum:

  • Nemendur í 7.- 10. bekk mæta kl. 09:00
  • Nemendur í 4. - 6. bekk mæta  kl. 09:45
  • Nemendur í 2.- 3. bekk mæta  kl   10:30
  • Nemendur 1. bekkjar eru með sérstöku bréfi boðaðir til viðtals hjá umsjónarkennara mánudaginn 25. ágúst.

Þriðjudaginn 26. ágúst hefst kennsla samkvæmt stundaskrá hjá öllum nemendum skólans. Foreldrar barna í 1. bekk eru hvattir til að mæta með börnum sínum í upphafi fyrsta skóladags. Skólasetning í 1. bekk á Sal skólans kl. 8:15. 

Að lokinni skólasetningu fara nemendur og foreldrar með umsjónarkennara í heimastofu og fá afhenta stundaskrá og aðrar upplýsingar. 

 

Skólamatur

Foreldrum býðst eins og undanfarin ár að kaupa skólamáltíð fyrir börn sín í hádeginu. Skólamatur sér um að framleiða matinn og afhenda nemendum. Lögð er áhersla á að bjóða upp á mat sem er í senn hollur, góður og heimilislegur.

Matseðlar birtast eins og venjulega á www.skolamatur.is

Áskriftarverð er 428 kr. fyrir hverja máltíð og greiðist fyrirfram með greiðslukorti eða greiðsluseðli. Einnig eru seldar stakar máltíðir í mötuneytinu á 700 kr. Skráning fer fram á www.skolamatur.is en þar má einnig finna nánari upplýsingar um skólamatinn. Auk þess er hægt að senda fyrirspurnir á skolamatur@skolamatur.is
 

 

Frístund - heilsdagsskóli

Frístund er starfrækt fyrir börn sem stunda nám í 1.- 4. bekk í Álftanesskóla. Frístund heyrir undir skólastjóra og fer starfsemi hennar fram í Vallarhúsi við Breiðumýri undir umsjón Jóhönna Aradóttur.

Frístund er opin frá skólalokum til kl. 17:00 en nánari upplýsingar eru á heimasíðu skólans undir flipanum Foreldrar. Gjaldskrá Frístundar má finna á heimasíðu skólans sem og á Minn Garðabær. Skráning fer fram á Minn Garðabær og þar þarf einnig að sækja sérstaklega um systkinaafslátt en hann gildir á milli Frístundar, leikskóla og dagforeldra.

Umsjónarmaður Frístundar: Jóhanna Aradóttir.
Tölvupóstfang: johanna@alftanesskoli.is
Símanúmer Frístundar eru 565-8528 og 821-5455.

 

Skólatíminn

Skólinn opnar alla daga kl. 7:45 og lokar kl. 16:00 nema á föstudögum lokar hann kl. 14:00. Kennsla hefst í öllum bekkjum kl. 8:15.

 

Áherslumál skólaárið 2014 - 2015

  1. Innleiðing nýrrar aðalnámskráar.
  2. Vegvísir og vörður í 1. - 7. bekk - Fjölbreyttir kennsluhættir í íslensku.
  3. Lestur og ritun.
  4. Útikennsla og hreyfing.

Á döfinni

Dagana 2. - 5. september eru haustfundir með foreldrum.
Föstudaginn 12. september er skipulagsdagur kennara.
Dagana 22. - 23. september eru samræmd könnunarpróf hjá 4. og 7. bekk.
Dagana 24. - 26. september eru samræmd könnunarpróf hjá 10. bekk.
Mánudaginn 27. október er skipulagsdagur kennara.
Þriðjudaginn 28. október eru námsviðtöl 1. kvartel
Dagana 29. - 30. október Lesið í Nesið - útikennsla
©2014 Álftanesskóli
Álftanesskóli, v/ Breiðumýri, 225 Garðabær

www.alftanesskoli.is
alftanesskoli@alftanesskoli.is