Copy
Fréttir og upplýsingar frá Álftanesskóla.
22. árgangur 4. tbl - nóvember 2015

Kæru foreldrar

Ágætu foreldrar/forráðamenn nemenda í Álftanesskóla.

 
Haustið hefur verið okkur öllum afar farsælt hér í skólanum og skólastarfið gengið mjög vel. Í garð er genginn sá tími sem mikilvægt er að öll börn og fullorðnir nýti endurskinsmerki í skammdeginu og tryggi þannig sem best öryggi sitt í umferðinni.

Jólin og jólaleyfi fara að nálgast og margir farnir að hlakka til. Ýmsir viðburðir eru á dagskrá hjá okkur síðustu daga nóvember og í desember og má lesa nánar um þá hér að neðan og á heimasíðu skólans.

Skólastjóri þakkar nemendum, foreldrum þeirra og starfsmönnum skólans samstarf og uppbyggjandi nærveru á liðnu ári. Óskar ykkur friðar og velferðar á nýju ári 2016.
 
 

Gjöf frá Lionsklúbbnum Seylu

Lionsklúbburinn Seyla afhenti Álftanesskóla að gjöf 29 eintök af bókinni „Viltu vera memm?“ ásamt kennsluleiðbeiningum til að nota á yngsta stigi í fræðslu gegn einelti. Sveinbjörn skólastjóri og námsráðgjafar skólans þær Kristín og Katrín Anna tóku á móti bókunum sem þær Alda Lára Jóhannsdóttir og Guðrún Skúladóttir afhentu fyrir hönd Seylu.

Álftanesskóli þakkar Lionsklúbbnum Seylu kærlega fyrir góða og gagnlega gjöf. 


 

Ævar vísindamaður heimsækir 4. - 7. bekk

Miðvikudaginn 25. nóvember næstkomandi mun Ævar vísindamaður kynna bók sína „Þín eigin goðsaga“ fyrir nemendur í 4. - 7. bekk.

Hann mun einnig segja nemendum frá lestrarátaki sem hann stendur fyrir sem mun hefjast 1. janúar 2016.
 

eTwinning verkefni nemenda í 5. bekk

eTwinning verkefni sem Anna Svanhildur Daníelsdóttir kennari við skólann vann með nemendum í 5. bekk í fyrra, The friendship project - Iceland and France, hefur hlotið gæðamerki Landsskrifstofunnar. 

eTwinning er netsamfélag skóla um alla Evrópu. Kennarar frá öllum þátttökulöndum geta skráð sig og nýtt sér netverkfærin sem í boði eru til að finna samstarfsaðila, deila hugmyndum, finna dæmi um verkefni, mynda samstarfshópa og taka þátt í netverkefnum. eTwinning er einnig tækifæri fyrir nemendur að kynnast í gegnum samstarfsverkefni.

Verkefnið sem nemendurnir unnu var vinaverkefni á milli Álftanesskóla og Raymond Queneau Secondary School í Normandy Frakklandi. Þau byrjuðu á að skrifa bréf þar sem þau kynntu sig, áhugamál sín, fjölskyldu, uppáhalds mat o.fl. Þau kynntu skólann sinn og tóku upp myndband sem kynningu á skólanum ásamt viðtali við Sveinbjörn skólastjóra. Þau sögðu einnig frá hefðbundnum skóladegi og héldu Skype fundi þar sem þau sögðu frá og fræddust um jól, hefðir og ýmsa siði. Íslensku krakkarnir sungu íslenskt jólalag fyrir vini sína sem sungu svo jólalag á frönsku fyrir þau. Saman sungu þau svo öll saman lagið „Jingle bells“ á ensku.  

Öll verkefnin og myndböndin voru sett inn á TwinSpace síðu sem eingöngu var aðgengileg kennurum í verkefninu.

 

Amma óþekka

 
Rithöfundurinn Jenný Kolsöe kom í heimsókn á degi íslenskrar tungu og las upp úr bók sinn Amma óþekka og tröllin í fjöllunum fyrir nemendur í 2. og 3. bekk. Nemendurnir voru skólanum til sóma og hlustuðu af athygli.


Fræðslufyrirlestur í boði Foreldrafélagsins

Foreldrafélagið bauð nemendum í 5. - 10. bekk upp á fræðslufyrirlesturinn „Þegar mynd segir meira en þúsund orð“ en þar fjallaði Þórdís Elva Þorvaldsdóttir um öryggi í stafrænum samskiptum.

Álftanesskóli þakkar Foreldrafélaginu kærlega fyrir þetta frábæra framtak.  


Hundur í óskilum

Hljómsveitin Hundur í óskilum flutti verkið „Halldór Laxness á Hundavaði“ fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk. Í tilefni af því að 60 ár eru liðin frá því að Halldór Laxness fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum var hljómsveitin Hundur í óskilum fengin af Rithöfundasambandinu til að búa til dagskrá tengda skáldinu. Hljómsveitin sem einmitt er þekkt fyrir að skauta í gegnum Íslandssöguna á einni kvöldstund afgreiddi Nóbelsskáldið á sama hátt eða á hundavaði. Þeir Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson fóru í gegnum nokkrar af þekktustu skáldsögum Halldórs í tali og tónum. Flutningur þeirra var léttur og skemmtilegur og náði vel til allra sem á hlustuðu.


Framundan í nóvember og desember

24. og 25. nóvember býður Foreldrafélagið í samráði við skólastjóra upp á fræðslufyrirlestur um eineltismál sem kallast „Ást gegn hatri“. Þetta er fræðsluátak sem félagasamtökin Erindi standa fyrir í samstarfi við feðginin Selmu Björk Hermannsdóttur og Hermann Jónsson. Meginstef þessa fræðsluátaks er að mæta hatri með ást. Selma Björk ræðir við nemendur í 4. - 7. bekk þriðjudaginn 24. nóvember en faðir hennar Hermann ræðir svo við foreldra miðvikudagskvöldið 25. nóvember kl. 20:00.

25. nóvember mun nemendafélagið kynna kærleiksverkefnið í ár fyrir samnemendum sínum en þau eru að safna fyrir Barnaspítala hringsins.

26. og 27. nóvember verða Kærleikarnir og er þema þeirra í ár „Öryggi“. Árgangar og nemendur verða paraðir saman í vinapör og munu útbúa saman hús sem er tákn öryggisins. Þau munu skreyta og skrifa áhrifarík skilaboð á húsin til að hengja á „Kærleikstré“ í andyrum skólans. Vinabekkir vinna saman eitt stórt hús sem fer á stofnanir í kringum skólann. Kærleikarnar enda svo með tískusýningu Grænfánans og marseringu vinapara í Íþróttamiðstöð.

28. nóvember verður hinn árlegi Jóla- og góðgerðadagur á Álftanesi haldinn í sjöunda sinn í Íþróttamiðstöð Álftaness frá kl. 12:00 til 16:00. Nánar auglýst á heimasíðu skólans.

4. desember fara nemendur í 1. - 3. bekk með rútu að Bessastöðum og kveikja á jólatrjánum þar með forseta Íslands. Þegar búið er að kveikja ljósin fá nemendur súkkulaðidrykk og piparkökur í boði forseta og að því loknu fara nemendur í friðar- og kyrrðarstund í Bessastaðakirkju. Friðar- og kyrrðarstund verður einnig í boði fyrir aðra árganga skólans þennan sama morgun.

9. desember fara nemendur í 2. og 3. bekk með rútu á tónleika Tónlistarskóla Garðabæjar.

17. og 18. desember sýnir 4. bekkur jólaguðspjallið fyrir foreldra, leikskólana og á litlu jólum hjá 1. - 5. bekk (nánari tímasetning auglýst síðar).

17. desember Litlu jól hjá 6. - 7. bekk kl. 17:00 til 19:00 og hjá 8. - 10. bekk kl. 20:00 til 22:00.

18. desember Litlu jól hjá 1. - 5. bekk kl. 9:00 - 11:30. Skóla lýkur kl. 11:45. Tekið verður á móti nemendum sem þurfa að koma kl. 8:15 á bókasafni skólans.

Frístund

Föstudaginn 18. desember er skert viðvera í Álftanesskóla og lýkur skólanum fyrir hádegi vegna Litlu jóla hjá 1. - 4. bekk. Þann dag opnar Frístund um leið og skóla lýkur. Nauðsynlegt er að börnin séu skráð sérstaklega í Frístund þann dag.
 
Í jólaleyfinu er Frístund opin fyrir öll börn í 1. – 4. bekk frá 8:00 – 17:00. Þeir dagar sem Frístund er opin eru 21. des., 22. des, 23. des. (Þorláksmessa), 28., 29. des. og 30. des. og  einnig 4. janúar sem er skipulagsdagur kennara.
 
Þeir foreldrar sem ætla að nýta sér opnun Frístundar í jólaleyfinu verða að skrá börnin með tölvupósti til Jóhönnu umsjónarmanns (johanna@alftanesskoli.is) eigi síðar en 13. desember.

Hægt er að nýta sér Frístund eftir því sem hentar fjölskyldum best, þ.e. skrá einn dag eða fleiri.

 

Að loknu jólaleyfi

Mánudaginn 4. janúar er skipulagsdagur en nemendur mæta í skólann samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 5. janúar.
©2015 Álftanesskóli
Álftanesskóli, v/ Breiðumýri, 225 Garðabær

www.alftanesskoli.is
alftanesskoli@alftanesskoli.is